Heilsuefling í sátt

Greinin var birt í Morgunblaðinu í apríl

Náttúrulæknar og græðarar vinna með heilsuna á heildrænan hátt og leitast við að vera í samhljómi og samvinnu við náttúruna og nýta að auki ýmsar afurðir hennar.
Eins og vitað er þá fylgir lífsháttum manna margskonar mengun. Plastefni og eiturefni eru að safnast fyrir í umhverfinu, til dæmis skordýraeitur og vaxtarhormón sem notuð eru við ræktun á matvælum. Í verksmiðju-framleiðslu á kjöti og öðrum dýraafurðum eru notuð sýklalyf, kannski ekki í jafnmiklum mæli hér á landi og í sumum öðrum löndum en lyf eða lyfjaleifar fara út í náttúruna og eru mjög lengi að brotna þar niður. Slík mengun er ógn við lýðheilsu samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofuninni. Óhóflegar lyfjagjafir fyrir menn og dýr eru nú gríðarlegt heilbrigðisvandamál. Sífellt fleiri bakteríur þróa lyfjaónæmi og í heiminum deyja um 25 manns vegna þess á hverju ári. Ef gengið er á náttúruna grípur hún til andsvara með sínum hætti meðal annars með því að þróa nýjar og sterkari gerðir af örverum. Mengun hvar sem er í heiminum skiptir máli því við búum öll á sömu jörðinni. Maðurinn verður ekki heilbrigðari en jörðin sem hann býr á.

Ýmsar náttúrulegar heilsustyðjandi leiðir eru þekktar. Nefna má dæmi um náttúruafurðir eins og hveitigras, hvönn, fjallagrös og aloa vera, eða náttúrulækningar með vatni og ozoni eða súrefnislækningar, orkujöfnun eða reikiheilun og aðferðir að svipuðum toga þar sem unnið er með heildræn náttúruleg efni, sýnileg eða ósýnileg.

Græðarar vinna við náttúrulækningar og ýmsar heildrænar meðferðir. Um græðara á Íslandi gilda lög sem tóku gildi frá Alþingi 2. maí 2005. Bandalag Íslenskra græðara eru regnbogasamtök félaga sem vinna við heildrænar meðferðir þau eru: Félag heilsu- og lithimnufræðinga, Organon, fagfélag hómópata, CranioSacral félag Íslands, Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Svæðameðferðafélag Íslands og Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi. Með lögum um græðara voru menntunarkröfur skilgreindar ásamt réttindum og skyldum. Félög innan Bandalagsins hafa fengið menntun sína og siðareglur samþykktar hjá Landlæknisembættinu og Heilbrigðisráðuneyti.

Græðarar nota aðferðir í störfum sínum sem margar hverjar hafa verið stundaðar í þúsundir ára og voru lengst af hluti af hinum hefðbundnu lækningum. Heilsu- og lithimnufræðingar leggja áherslu á fræðslu um heilsu og nota lithimnu- og hvítugreiningu í því ferli. Lithimnugreining hefur verið notuð af læknum bæði í Rússlandi og í Þýskalandi frá því snemma á 19. öld, en þar vinna náttúrulæknar og læknar gjarnan samhliða. Einn framsæknasti lithimnufræðingur okkar tíma er ítalski læknirinn Daniel Lorito. Heilsu- og lithimnufræðingar, sem og aðrir náttúrulæknar, nota líka margvíslegar aðferðir til heilsustuðnings þar á meðal lífrænt fæði, jurtir og aðrar afurðir náttúrunnar og bættan lífsstíl.

Á vesturlöndum hafa lífsskilyrði verið sérlega góð síðustu 50 árin. Samt sem áður hefur tíðni sjúkdóma eins og sýkursýki og hjarta- og æðasjúkdóma margfaldast og krabbamein er orðið ein af algengustu dánarorsökum barna. Setja má margar spurningar við slíka þróun og kannski er eftirsóknarvert að skoða hana útfrá heildarmyndinni. Að mörgu leyti hefur maðurinn fjarlægst tengslin við náttúruna á sama tíma og umhverfi hans hefur mengast mjög. Frá sjónarhorni náttúrulækninga er það ekki hollt fyrir heilsuna. Vinna græðara felst í forvörnum og að nýta náttúruna til heilstyrkingar, meðal annars með því að styðja fólk á leið sinni í að taka ábyrgð á eigin heilsu.

Gagnrýni á þá sem fara ótroðnar slóðir er ekki ný af nálinni. Það átti líka við um lækninn og náttúrulækninn Jónas Kristjánsson stofnanda Heilsuhælisins í Hveragerði. Starfsemin er í raun lýsandi dæmi um góðan árangur á samþættingu vísinda læknisfræðinnar og visku náttúrulækninga og mikilsverð fyrirmynd og leiðarljós í heilsueflandi störfum.

Lilja Oddsdóttir,
Skólastjórnandi Heilsumeistarskólans
Skráður græðari

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *