Tilfinningar og þörfin til að vinna úr þeim

Í fyrsta pistli mínum um tilfinningar velti ég upp spurningunni: Hvað eru tilfinningar, hvaðan koma þær og hversvegna? Að þessu sinni er ég að velta fyrir mér hvers vegna við þurfum að vinna með þær, þessar tilfinningar sem jafnvel hafa verið til ama árum saman.

Við könnumst flest ef ekki öll við þá tilhneigingu að kyngja bara tilfinningum, byrgja þær inni, láta ekki sjá að við höfum tilfinningar, allt til að passa að yfirborðið sé slétt og fellt.

Þetta læra börnun svo af okkar.

Við könnumst líka flest við kvíðahnútinn í maganum, þyngslin fyrir brjóstinu og suðið í eyrunum, þegar einhverjar tilfinningar verða yfirþyrmandi. Hver kannast ekki við að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, þegar svona stendur á. En af hverju og skiptir tilfinningavinna máli?

Ég hef kannski ekki fullnægjandi svör, en ætla að skoða þetta útfrá minni reynslu og því sem ég hef lesið.

Byrjum á spurningunni af hverju. Já, af hverju þurfum við að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, af hverju þarf yfirborðið að vera svona fj…. fullkomið, þegar sálin grætur innst inni?

Hver situr í vanlíðaninni, þorir ekki að viðurkenna að þurfa aðstoð, þorir því síður að leita eftir aðstoð. Þú gætir verið ennþá minni manneskja en þú ert nú þegar, ef maður stendur ekki undir öllum þeim kröfum sem maður setur á sjálfan þig. Eða ef maður stendur nú ekki undir þeim kröfum sem lífið gerir á mann, það væri ljóti skandallinn.

KOMMON, loksins seint og um síðir áttaði ég mig á því að ég þarf að lifa MÍNU lífi, það gerir það enginn fyrir mig. Og veistu, ég komst að því að það er fullt af fólki, þarna úti, að glíma við svipaða hluti, ég er ekkert minni þó að ég hafi gömul sár til að vinna úr, ég er ekkert minni þó að ég leiti mér aðstoðar, ég er nefnilega bara stærri fyrir vikið.

Með því að leita mér aðstoðar hef ég smám saman leyft mér að vera meira og meira ég, í mér, fyrir mig og um leið á ég meira að gefa öðrum. Það er dásamlegt.

Sama lögmálið gildir og með veraldlega hluti, það er ekki bara hægt að gefa, það þarf líka að fylla á lagerinn. Við vitum að kirtlarnir okkar seyta hormónum útí líkamann, við hin ýmsu áreiti.

Allir kannast við adrenalín kikk, við verðum ör, okkur líður vel í smá tíma, við erum tilbúin til átaka. Frá náttúrunnar hendi stendur adrenalínseyti yfirleitt yfir í stuttan tíma, líkaminn er ekki gerður til þess að vera með stöðugt ofseyti af adrenalíni. Fleiri efnasambönd geta farið af stað við tilfinningaáreiti, enda líkaminn ein efnaverksmiðja.

Þetta dæmi tek ég til að leggja áherslu á það að tilfinningar hafa líkamleg áhrif. Það að vera stöðugt með gamlar, undirliggjandi, erfiðar tilfinningar hefur áhrif á líkamlega líðan. Þær setja aukið álag á líkamann og geta með tímanum valdið skaða. Eins og að ofan kom fram, hafa tilfinningar áhrif á hormónaseyti en fleira kemur til.

Samkvæmt fræðum Louise L. Hay eru tilfinningar undirrót allra sjúkdóma. Ég hef töluvert hugsað um þetta, þar sem við lifum í ansi sjúkdómavæddum heimi. Jú, líkaminn er orka, tilfinningar eru orka, allt er orka.

Við samþykkjum að GSM síminn getur truflað útvarpið, því getur þá ekki tilfinningaleg orka truflað líkamlega orku.

Annað sem ég hef hugsað mikið í þessu samhengi er spurningin; hvernig eru venjur okkar að tengjast tilfinningum?
Kannstu við að borða þegar þér líður illa, eða lystarleysi tengt andlegri vanlíðan? Hver kannast ekki við að þurfa að rjúka út í göngu í uppnámi, til að losa út?
Hver kannast ekki við, að hafa sig ekki fram úr rúmi í þunglyndiskasti eða depurð?

Sumir borða mikið til að reyna að finna einhverja vellíðan, aðrir neita sér um næringu í leitinni að hinu fullkomna lífi, jafnvel í óttanum við að missa stjórnina á lífinu, sem svo snýst í andhverfu sína, þegar ofstjórnin ræður ríkjum og næringin engin.

Sumir fara í ofþjálfu sem enn önnur leið til að hafa stjórn, stjórn sem valdið getur líkamlegum skaða. Aðrir forðast hreyfingu eins og heitann eldinn, finnst það of erfitt og hafa sig ekki af stað.

Með þessum líkamlegu athöfnum, erum við oft að finna okkur leið fram hjá því að takast á við erfitt verkefni. Verkefnið að takast á við eigin tilfinningar, gömul sár, gömul áföll. Ótrúlegt hversu langt maður er tilbúinn að ganga áður en tekist er á við undirrót annarra vandamála. Gæti verið að tilfinningar væru ástæðan fyrir því hversu margir í yfirþyngd berjast árum saman, rokka upp og niður í þyngd, prufa þennann og hinn kúrinn, en detta svo alltaf í tilfinninga átið, halda svo áfram að rífa sig niður fyrir uppgjöfina og svo hring eftir hring.

Er ekki allavega ljóst að oft virðsit þurfa að brjóta upp gömul munstur? Það er erfitt að búast við nýrri útkomu, ef þú notar alltaf sömu aðferðina.

Á þennan hátt má sjá að það eru tengslin á milli tilfinninga og líkamlegrar vanheilsu. Ég hef líka grun um að líta megi á enn fleiri þætti eins og áhrif hugsana og orku en ég ætla þó ekki nánar útí það í þessum pistli.

Mín helsta flóttaleið var einangrun, sykur og brauð, afleiðingarnar að því að næra mig ekki líkamlega og andlega voru vonleysi, kvíði, þunglyndi, vefjagigt og síþreyta. Þær breytingar sem ég hef gert á mínu lífi hafa kostað mikla vinnu og fjármuni en jeddúddamía ekki vildi ég fara til baka, því allur þessi tími, allir þessir aurar, þeim var vel varið.

Í dag á ég von, í dag á ég gott líf, í dag horfi ég til framtíðar með gleði í hjarta og bros á vör, í fullvissu þess að ég held áfram á þessari braut, held áfram að vinna með tilfinningarnar sem eru þarna ennþá, held áfram að byggja mig upp til að verða betri og meiri ég.

Og þegar ég dett, þá á ég verkfærakistu fulla af flottum og gagnlegum verkfærum, verkfærum sem ég er búin að nota áður og veit að virka fyrir mig.

Í dag er hjarta mitt í sælu, því ég er tilbúin að stökkva útí djúpu laugina, standa ein með verkum mínum, sem sjálfstætt starfandi Heilsumeistari.

Megi þitt innra ljós lýsa þér ÞINN veg, megi hjarta þitt brosa alla daga.
Sigríður I Helgadóttir
Heilsumeistari

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *