Tilfinningavinna með ilmkjarnaolíum

Alveg er maður stundum merkilegur!

Ég er búin að eiga bók upp í hillu í ca. 2 ár. Bók sem notuð er í kennslulotu um tengsl á milli tilfinninga og líkamlegrar heilsu og tilfinningaheilunar, í Heilsumeistaraskólinn. Þarna var þessi elska búin að liggja og bíða eftir athygli. Nokkrum sinnum var ég búin að fletta aðeins í henni en náði ekki að festa athyglina við hana. Í haust var svo komið að því, ég var greinilega tilbúin að meðtaka boðskapinn.

Þvílík himnasending, þetta er dásemdarbók, kannastu við svona dæmi?

Þvílík snilld, þegar maður er tilbúinn þá kemur það til manns það sem maður þarf á að halda, það er bara þannig!

Bókin frábæra heitir ‘Releasing Emotional Patterns with Essential Oils’ (að losa tilfinningamunstur með ilmkjarnaolíum), skrifuð af Carolyn L. Mein, D.C. kírópraktor, næringarráðgjafa og nálastungu þerapista.
 

Jebb þarna, akkúrat á þessum tímapunkti, var ég greinilega tilbúin til að meðtaka fróðleik þessarar bókar. Ég gjörsamlega drakk hana í mig á nokkrum dögum, hef síðan verið að vinna eftir hennar leiðbeiningum með gömul tilfinningatengd munstur. Frábært að finna hvernig þetta virkar – að finna þegar eitthvað gamalt, sem valdið hefur vanlíðan og jafnvel haldið aftur af manni, losnar burt. Tilfinningin er svona umm…. já nokkurs konar léttir.

Ég byrjaði á að vinna með þörf mína til að þóknast öllum í kringum mig, stór partur af meðvirknimynstrinu mínu, sem enn eimir eftir af þrátt fyrir kúrsa og lestur um það efni. Það sem kom mér skemmtilega á óvart var að ég átti glas af olíunni sem átti að nota, Geranium en hafði lítið notað hana, vissi eiginlega ekki af hverju ég hafði pantað hana, en þarna beið hún bara eftir notkun, eins og bókin.

Þrisvar á dag notaði ég olíuna eftir leiðbeiningum Carolyn. Það gerðist svolítið skrítið, þegar ég var búin að koma mér fyrir, lykta nokkrum sinnum af olíunni, með þeim ásetningi að losa um þetta munstur, þá fékk ég svona hroll innanum mig, þegar ég andaði frá mér. Ég hafði á tilfinningunni að eitthvað hefði losnað úr frumunum mínum. Þetta gerðist í nokkur skipti en hætti síðan, mögnuð en á sama tíma skrítin upplifun. Í þessu ferli upplifði ég líka, að fá myndrænt upp í hugann, tengingarnar við þetta gamla munstur mitt og skilning á því hvernig það var tilkomið. Þessi upplifun veitti mér aftur þann skilning að þetta munstur passar ekki inní mitt líf í dag.

Það er nefnilega svo merkilegt að við höldum í gömul munstur, sem jafnvel hafa orðið til í bernsku í sambandi við áföll. þegar ekki er unnið strax með áfallið festumst við í munstrinu, sem inni í okkur leitar samt lausnar, bankar aftur og aftur uppá þar til við erum tilbúin að takast á við að leysa um það.

Ég skal ekki fullyrða að ég sé endanlega, búin að losa út þetta þóknunarmunstur úr mínu lífi, fyrir lífstíð. Hitt veit ég, að ég er búin að taka ýmsar ákvarðanir síðan þessi vinna fór fram, sem hafa algjörlega verið teknar fyrir mig, til að þjóna mínum tilgangi, ekki annarra og það besta við það er að mér líður svo vel í hjartanu mínu, ekkert samviskubit yfir því og lítið um kvíða eða ótta.

Staðráðin í því að ná að byggja sjálfa mig ennþá betur upp, held ég áfram að nota þessi verkfæri, dásamlegu dropana mína og þessa frábæru bók.

Núna er ég að vinna með afbrýðisemi og fátæktartilfinninguna, Lemon og Abundance olíurnar eru notaðar með því. Aftur er ég að fá svona hroll þegar eitthvað virðist vera að losna úr systeminu mínu, mér finnst þetta svolítið magnað. Hlakka svvooo…. til þegar þessar tvær verða farnar.
Screen Shot 2015-02-19 at 10.32.38

Ég ætla nefnilega að blómstra í núinu, taka við öllum þeim verkefnum sem starf mitt sem Heilsumeistari færir mér, ásamt þeim verkefnum sem lífið almennt færir mér. Laus við það að telja mig eitthvað minni en aðrir, en sú tilfinning er rótin að afbrýðisemi.

Meðfram því að vinna með tilfinningamynstrin mín, með olíunum mínum dásamlegu, er ég að lesa annars konar fróðleik um sama málefni, t.d. ‘Máttur Viljans’ eftir Guðna Gunnars, mörg aha móment þar, og  ‘Hjálpaðu sjálfum þér’ eftir Louise L. Hay, dásemdin ein um tengsl sjúkdóma og líkamlegrar vanlíðunar við tilfinningalega líðan, ófáar stundirnar fara í það að vafra á veraldarvefnum, og meðtaka eitt og annað af öllum þeim hafsjó af fróðleik, sem þar er að finna. Einnig nota ég hugleiðslu og jógaæfingar og passa mig að vera í samskiptum sem henta mér á hverjum tíma.

Á allan hátt næri ég sjálfa mig, bæði líkamlega og andlega eins og best ég get hverju sinni.

Þetta finnst mér vera lykilatriði fyrir mig, ég má þetta nefnilega, ég má sinna sjálfri mér, ég má vera til og leika mér, mér má líða vel í augnablikinu. Mér má líka mistakast, þegar það gerist passa ég bara að rífa mig ekki niður fyrir það og held áfram. Ég finn í hjartanu mínu að ég er búin að gefa mér leyfi til að vera til, eins og ég er. Ég þarf ekki bara að vera til fyrir aðra, á annarra forsendum, en það er sú sjálfsblekking sem hefur verið ríkjandi með mér mest allt mitt líf.

ÉG Á NÝTT LÍF og má lifa því eins og ÉG vil. DÁSEMD!!

MUNDU, ÞÚ MÁTT ÞAÐ LÍKA!

Megir þú eiga góða daga, fulla af gleði og vellíðan. Megi þinn innsti kjarni lýsa þér veginn að innri fullnægju.

 

Höfundur:

Sigríður I Helgadóttir

Heilsumeistari, Akureyri

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *